Atli Gíslason, formaður þingmannanefndar sem fór yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sagði fyrir stundu á Alþingi að hann hefði ekki viljað kljúfa nefndina þegar fjallað var um það hvort rannsaka ætti sérstaklega einkvæðingu bankanna 2002 og 2003.

Atli sagðist hafa tekið „mikilvægi samstöðunnar" fram yfir það að nefndin myndi klofna, 5 á móti 4, til þess hvort rannsaka ætti einkavæðingu bankanna.

„Ég taldi mikilvægt að halda samstöðu í sem vegamestum atriðum og mín afstaða tók mið af því."

Tveir fulltrúar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins töldu ekki þarft að rannsaka sérstaklega einkavæðingu Búnaðarbankans og Landsbankans. Fjórari fulltrúar Vg, Hreyfingarinnar og Samfylkingar vildu hins vegar að einkavæðingin yrðu rannsökuð sérstaklega. Atli tók ekki afstöðu til þess og því fékkst ekki meirihluti fyrir því í nefndinni að einkavæðingin yrði rannsökuð.

Atli sagði hins vegar í ræðu sinni að þetta útilokaði það ekki að rannsókn gæti fari fram á einkavæðingunni og Alþingi gæti alveg eins samþykkt að ráðast í rannsókn á einkavæðingunni þrátt fyrir það að þingamannanefndin hefði ekki komist að því í sinni vinnu.