Fjárfestingafélagið Atorka Group hefur eignast 56,25% hlut í Jarðborunum, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands. Atokra mun svo gera yfirtökutilboð í allt hlutafé Jarðborana inna fjögurra vikna.

Í tilkynningunni segir að félagið hafi keypt eignarhluti Sigurðar Helgasonar og Sigurðar Þórs Kristjánssonar, sem samsvarar um 12,4% af heildarhlutafé Jarðborana.

?Atorka Group mun bjóða hluthöfum í Jarðborunum að kaupa hlutabréf þeirra í félaginu í skiptum fyrir hluti í Atorku Group hf. Stjórn Atorka Group hf. hefur heimild hluthafafundar til útgáfu nýrra hluta í félaginu til þess að standa við þessar skuldbindingar,? segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Viðskiptin í dag fóru fram á genginu 25,0 og var endurgjaldið hlutir í Atorku Group hf. á genginu 6,0. Í kjölfar yfirtökutilboðsins verður óskað eftir því að hlutabréf Jarðborana hf. verði afskráð úr Kauphöll Íslands, segir í tilkynningu Jarðborana.