Atorka hefur eignast um 10% hlut í Asia Environment Holdings (AENV) sem er skráð í Kauphöllinni í Singapore (SGX-ST). Heildarverð kaupanna er um 1,1 milljarður króna og hafa kaupin átt sér stað á undanförnum vikum. Atorka [ ATOR ]fjármagnar kaupin með handbæru fé segir í tilkynningu félagsins.

Í tilkyningunni kemur fram að Asia Environment Holdings er leiðandi framleiðandi á vatnshreinsilausnum í Kína. AENV sérhæfir sig í heildarlausnum á sviði vatnshreinsunar allt frá framleiðslu á búnaði til reksturs og eignarhalds á vatnshreinsistöðvum. AENV hefur meðal annars nýlega lokið við uppbyggingu á 200.000 m3 vatnshreinsistöð í Kína sem félagið mun eiga og reka næstu 20 árin og vinnur að uppbyggingu á annan tug sambærilegra verkefna í Asíu. Markaðsvirði Asia Environment Holdings er um USD 175 milljónir og er félagið skuldlaust með töluvert handbært fé og því með góða fjárhagslega stöðu til frekari vaxtar. Áætluð velta félagsins er um USD 80 milljónir fyrir árið 2008 og áætluð EBITDA er um 24 milljónir dollara.

"Þessi fjárfesting er í takt við okkar fjárfestingarstefnu og sjáum við veruleg tækifæri á þessum markaði og þá sérstaklega í Asíu. Með aukinni velmegun aukast kröfur um aukin lífsgæði og nýtur þessi geiri góðs af því," segir Magnús Jónsson forstjóri Atorku í tilkynningu.


Atorka Group er fjárfestingarfélag sem er skráð í OMX Nordic Exchange á Íslandi. Atorka fjárfestir í traustum fyrirtækjum sem eru í atvinnugreinum sem hafa sérstök tækifæri til vaxtar á heimsmarkaði. Í fjárfestingum sínum leggur Atorka áherslu á að rekstur fyrirtækjanna sé öflugur með sterkt sjóðstreymi, sterkt stjórnendateymi, starfi við góð skilyrði til verulegs innri og ytri vaxtar og hafi tækifæri til verðmætaaukningar.