Atorka Group seldi í gær rúmlega 22% eignarhlut sinn í breska félaginu Low & Bonar, segir í tilkynningu til kauphallarinnar í London.

Verðbréfafyrirtækið Teather & Greenwood, sem er í eigu Landsbanka Íslands, sá um söluna sem fór fram á meðalgenginu 120 pens á hlut, en talið er að Atorka hafi keypt hlutinn í félaginu á um 80 pens á hlut.

Söluhagnaður félagins er því töluverður og heildarsöluverð hlutarins um 24,6 milljónir punda, eða um 3,8 milljarðar íslenskra króna.

Fjármálasérfræðingar í Bretlandi segja söluna gefa til kynna að íslenskt efnahagslíf sé of heitt og að samdráttur sé í nánd.

Sala FL Group á 16.9% hlut sínum í easyJet hefur einnig ýtt undir slíkar vangaveltur, þrátt fyrir að félagið hafi leitt 43 milljarða króna kaup á hollenska drykkjarvöruframleiðandanum Refresco.

Low & Bonar gaf út yfirlýsingu þess efnis að fyrirtækið ætti í yfirtökuviðræðum við ónefndan þriðja aðila í desember í fyrra. Markaðsaðilar í Bretlandi voru sannfærðir um að Atorka væri þriðji aðilinn sem um ræddi.