Atorka Group hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna tilboðs í 15,2% hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja hf. þar sem kemur fram að félagið hyggst sitja hjá. Jafnframt lýsir félagið því yfir að það sé reiðubúið að ganga til viðræðna um kaup á meirihluta hlutafjár í Hitaveitu Suðurnesja.

Í yfirlýsingunni kemur fram að Atorka lítur á Hitaveitu Suðurnesja sem mjög áhugaverðan fjárfestingarkost sem bjóði upp á ýmis tækifæri til framþróunar og vaxtar á sviði uppbyggingar og reksturs á jarðvarmavirkjunum. Aðkoma Atorku er hins vegar háð því að félagið eigi kost á að eignast ráðandi hlut eða félagið að fullu þannig að það geti komið að fjárfestingunni með virkari hætti en ella.