*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 13. febrúar 2006 17:50

Atvinnuleysi um helmingi minna en í fyrra

Ritstjórn

Atvinnuleysi er nú nánast helmingi minna en í fyrra, segir greiningardeild Kaupþings banka og segir erlent vinnuafl skipta sköpum til þess að anna aukinni vinnueftirspurn.

Atvinnuleysi jókst örlítið í janúar og stendur nú í 1,6% samanborið við 1,5% í desember síðastliðnum en atvinnuleysi mældist 3% í janúar 2005.

Taka verður tillit til árstíðarbundinna sveifla því atvinnuleysi minnkar lítillega frá því í desember. Enda atvinnuframboð yfirleitt hátt á þeim tíma.

Ný tímabundin leyfi sem gefin voru út í janúar síðastliðnum töldu 416 samanborið við 169 í janúar 2005.

Ef útgáfa tímabundinna atvinnuleyfa er skoðuð til lengri tíma sést að fjöldi tímabundinna leyfa árið 2005 var 3.965 samanborið við 1.230 árið 2004.

Atvinnulausar konur á höfuðborgarsvæðinu voru 1,6% af vinnuafli samanborið við 1,2% karla, en sömu tölur á landsbyggðinni sýna 3% hjá konum á móti 1,3% karla.

Alls voru 2.720 manns á atvinnuleysisskrá á landinu í lok janúar, 1.153 karlar og 1.567 konur.

Þegar þróun atvinnuleysis að teknu tilliti til árstíðabundinna sveiflna er skoðuð sést að atvinnuleysi hefur farið stöðugt minnkandi síðan í ágúst 2004.