Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, eru sammála um að áætlun stjórnvalda um afnám hafta muni hafa jákvæð áhrif á kjaraviðræður og efnahagslíf á Íslandi.

„Þessu fylgir gríðarlegt umstang og flækjustig og raunar höfum við séð allt of mörg dæmi þess að fyrirtæki hafa valið að flytja starfsemi sína um set vegna gjaldeyrishaftanna. Það er mikill léttir fyrir íslenskt atvinnulíf að nú hylli undir lok þessa tímabils," segir Þorsteinn Víglundsson í samtali við fréttastofu Stöðvar 2.

Liðkar fyrir kjarasamningum

Þorsteinn bætir við að áætlun um afnám fjármagnshafta muni bæði hafa jákvæð áhrif á þegar gerða kjarasamninga, auk þeirra sem enn séu óundirritaðir. Megin ástæða þess mun vera sú að óvissa um gengi krónunnar sé nú minna en áður.

„Það ætti þar að leiðandi að létta undir með kjaraviðræðunum og styrkja þá tiltrú manna að það verði efnahagslegur stöðugleiki á komandi misserum," segir Þorsteinn.

Dregur úr líkum á forsendubresti

Undir þetta tekur Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.

„Ég held að þetta treysti forsendur þess að ná hér stöðugleika, því það er alveg ljóst að það er forsenda, til dæmis í kjarasamningi, að ef að gengið brestur, þá losni um kjarasamninga. Útfærslan á þessu ætti að þýða það að til þess komi ekki," segir Gylfi Arnbjörnsson í samtali við fréttastofu Stöðvar 2.