Þýski bílarisinn Audi keyrði fram úr BMW á bílabrautinni á fyrstu tveimur mánuðum ársins en fyrirtækið landaði toppsætinu á lista fyrirtækja yfir mest seldu lúxusbílana á heimsvísu. Mercedes Benz er í þriðja sæti á lista yfir mest seldu bílana það sem af er ári.

Fram kemur í umfjöllun The Detroit News og byggir á sölutölum fyrirtækjanna að 242.400 bílar voru seldir undir merkjum Audi frá byrjun janúar og til febrúarloka. Þetta var 383 bílum meira en BMW seldi á sama tíma. BMW hefur vermt toppsætið síðastliðna níu mánuði og hefur 429 bíla vantað upp á hjá Audi að bílarisarnir væru jafnir.

Sala á bílunum hefur aukist mismikið á milli ára. The Detroit News segir sölu á bílum Audi hafa aukist um 43% í febrúar en BMW um 8,9%. Á sama tíma hefur sala á bílum Mercedes Benz aukist um 17%.