Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, sem sér um skráningar og eftirlit með heimagistingu auglýsir nú eftir sérfræðingi í verkið, en viðkomandi á meðal annars að sinna rafrænu eftirliti og undirbúa stjórnsýslumál á hendur þeim sem brjóta reglur um heimagistingu.

Nýju reglurnar sem tóku gildi nú um áramótin síðastliðin takmarka skammtímaleigu á íbúðarhúsnæði við 90 daga á ári og að tekjur af leigunni megi ekki fara yfir 2 milljónir á tímabilinu. Hámarkssekt nemur einni milljón króna að því er fram kemur í frétt Túrista .

Almenningur beðinn um að upplýsa um nágranna

Verður tekið við ábendingum um brot á reglunum frá almenningi ásamt því að starfsmaðurinn mun sinna rafrænu eftirliti með leigusölum eins og fram kemur í auglýsingunni.

Hafa í dag einungis 80 einstaklingar fengið úthlutuð leyfisnúmer hjá Sýslumanni og eru nöfn þeirra birt á vefnum heimagisting.is, en samkvæmt nýjustu tölum frá Airbnb eru um 4 þúsund íbúðir, herbergi eða hús á lista fyrirtækisins hér á landi.

Krafa um heilbrigðisvottorð mjög kostnaðarsöm

Eiga leyfishafarnir að birta þetta númer í allri markaðssetningu og kynningarstarfsemi eins og á bókunarvefjum eins og Airbnb, og er ljóst að einungis lítill hluti þeirra hefur gert það og sótt um skráningu.

Flöskuhálsinn virðist vera krafa um vottun heilbrigðisnefnda sem þyrfti að skoða hverja einustu eign sem sótt er um leyfi fyrir, en samkvæmt upplýsingum frá umhverfisráðuneytinu stendur til að fella þetta skilyrði út.

Kostar hátt í 50 þúsund krónur

Við það verður skráningin einnig mun ódýrari enda kostar vottunin hátt í 50 þúsund krónur, auk árlegs 8 þúsund króna skráningagjald til Sýslumanns og 560 krónur til þjóðskrár.

Má geta þess að heilbrigðisvottorð fyrir heilt gistiheimili kostar litlu meira en fyrir eitt herbergi í heimagistingu.