Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra undirritaði í gær samning við Kína um aukið samstarf á sviði tækni og vísinda. Tilgangur samningsins er að efla enn frekar samstarf landanna á þessum sviðum með heimsóknum og vistaskiptum vísindamanna og framhaldsnema, sameiginlegum rannsóknaverkefnum og samskiptum af öðru tagi eins og stofnun sameiginlegra rannsókna- og þróunarmiðstöðva. Í þessum tilgangi verður sett á fót sameiginleg nefnd landanna sem verður samningsaðilum til ráðgjafar um framkvæmd samningsins.

Hr. Cao Jianlin, aðstoðarráðherra Kína á sviði vísinda og tækni undirritaði samninginn fyrir hönd Alþýðuveldsins Kína.