*

þriðjudagur, 26. október 2021
Innlent 1. september 2021 09:07

Stóraukin sala til bílaleiga

Bílaleigur hafa keypt ríflega 3.700 nýja fólksbíla það sem af er ári eða 43% allra seldra bíla.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Alls seldust 840 nýir fólksbílar í ágúst samanborið við 581 á sama tíma í fyrra. Er þetta aukning um 44,6% á milli ára. Á fyrstu átta mánuðum ársins hefur sala nýrra fólksbíla aukist um 37,7%. Í ár hafa 8.612 nýir fólksbílar selst samanborið við 6.254 í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu.

Það sem af er ári hafa selst 3.596 nýir fólksbílar til einstaklinga en á sama tíma fyrra keyptu  3.315 einstaklingar nýjan bíl. Aukningin á milli ára nemur 8,5%. Almenn fyrirtæki, önnur en bílaleigur, hafa keypt 1.212 nýja  fólksbílar til það sem af er ári, sem er svipað og í fyrra þegar 1.192 nýir fólksbílar voru seldir til almennra fyrirtækja.

Bílaleigur hafa keypt 3.710 bíla á fyrstu átta mánuðum ársins samanborið við 1.646 á sama tíma í fyrra, sem er aukning um 125% á milli ára. Bílaleigur hafa því keypt 43% af öllum seldum fólksbílum það sem af er ári.

Nýorkubílar (rafmagns, tengiltvinn, hybrid, metan) eru 66,2 % allra seldra nýrra fólksbíla á árinu en þetta hlutfall var í heildina 51,6% á sama tíma á síðasta ári.

Kia var mest selda fólksbílategundin í ágúst en alls seldust 145 slíkir bílar. Næst á eftir kom Toyota með 133 selda bíla og Hyundai kom þar á eftir með 80 selda bíla.