Velta í dagvöruverslun jókst um 10,1% í júlí síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra, á breytilegu verðlagi. Á föstu verðlagi og árstíðarleiðrétt nam hækkunin 12,7%. Á sama tímabili lækkaði verðlag á dagvöru um 3% samkvæmt dagvöruhluta neysluverðsvísitölu Hagstofu Íslands.

Í frétt frá Rannsóknasetri verslunarinnar kemur fram að velta í dagvöruverslunum jókst á milli mánaðanna júní og júlí um 4,2%. Sala á áfengi jókst einnig töluvert milli ára, eða um 13% á breytilegu verðlagi og 6,8% á föstu verðlagi. Sumarútsölur í fata- og skóverslun voru líflegar í júlí. Verð á fatnaði lækkaði um 10% á milli mánaðanna júní og júlí samkvæmt verðvísitölu Hagstofunnar. Velta fataverslunar dróst því saman um 0,2% milli mánaða á breytilegu verðlagi en jókst um 14,6 á föstu verðlagi og að teknu tilliti til árstíðarleiðréttingar. Skóverslun jókst um 3% milli mánaða á breytilegu verðlagi og 12,1% á föstu verðlagi. Samanlögð velta í þeim flokkum smásöluverslunar sem mælingar Rannsóknaseturs verslunarinnar ná til jókst um 3,1% á milli júní og júlí.

Sú mikla veltuaukning sem varð í dagvöruverslun í mars síðastliðnum, þegar virðisaukaskattur var lækkaður og vörugjöld afnumin, hefur haldið áfram að aukast hvern mánuð. Sala áfengis hefur einnig tekið mikinn kipp nú í sumar. Sjálfsagt hefur veðurblíðan haft einhver áhrif á að menn hafa gert vel við sig í mat og drykk.

Þó má ekki gleyma þeim áhrifum sem 19% aukning á komu erlendra ferðamanna hefur á sölu matar og drykkja. Í júlímánuði er áætlað að um 78.500 erlendir ferðamenn hafi komið til landsins og ætla má að þeir hafi samtals varið næstum tveimur milljörðum kr. til kaupa á mat og drykk í verslunum og á veitingahúsum þann mánuð. Auk þess má ætla að þessir ferðamenn hafi varið um 824 millj. kr. til kaupa á öðrum vörum í íslenskum verslunum, ef miðað er við skoðanakönnun Ferðamálastofu á hlutfallslegri dreifingu útgjalda erlendra ferðamanna á Íslandi.

Mestu skiptir þó fyrir smásöluverslun að einkaneysla landsmanna virðist halda áfram að aukast. Þetta kemur m.a. fram í upplýsingum um greiðslukortaveltu heimilanna sem Hagstofan birtir. Þar segir að innlend greiðslukortaveltan hafi aukist um 9,8% á tímabilinu janúar ? júní síðastliðin, samanborið við sama tímabil í fyrra og erlend greiðslukortavelta hérlendis hafi aukist um 13,2% á sama tíma.