Mál sérstaks saksóknara gegn fjórum sakborningum í Aurum-málinu verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Málið snýst um kaup Glitnis á skartgripakeðjunni Aurum af Pálma Haraldssyni á sex milljarða króna í maí 2008. Sérstakur saksóknari telur að greitt hafi verið margfalt yfirverð fyrir Aurum og að Pálmi og Jón Ásgeir Jóhannesson, sem þá átti stóran hlut í Glitni, hafi fengið sinn milljarðinn hvor eftir söluna. Tölvupóstsamskipti benda til að Jón Ásgeir hafi hlutast til um viðskiptin.

Jón Ásgeir Jóhannesson er ákærður í málinu, auk Lárusar Welding, fyrrverandi bankastjóra, Magnúsar Arnars Arngrímssonar og Bjarna Jóhannessonar.

Í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag er fyrirtaka þar sem væntanlega verða lögð fram gögn sem skipta máli fyrir aðalmeðferð.