Kristín Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Gaums sagði á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins að horfa ætti til aðildar að Evrópusambandinu. Hún sagði að duttlungar krónunnar megi ekki ráða förinni í íslensku viðskiptalífi.

Kristín sagði íslensk fyrirtæki traust en bakland þeirra væri veikt og vísaði þar til mikillar verðbólgu og hárra stýrivaxta.

Hún sagði að ef aðstæður hér á landi myndu ekki breytast fljótlega myndu fyrirtæki íhuga flutning úr landi. „Það er ekki erfið aðgerð,“ sagði Kristín. Hún sagði mörg íslensk fyrirtæki eiga dótturfyrirtæki erlendis sem auðvelt væri að breyta í móðurstöð.

Kristín hvatti stjórnvöld til að kynna strax aðgerðir sem myndu fela í sér breytingar á íslensku efnahags- og viðskiptalífi.

„Það stoðar lítið að fara í miklar kynningarherferðir ef ekki á að boða breytingar,“ sagði Kristín.