Bæring Ólafsson, fyrrum forstjóri og framkvæmdastjóri Coca Cola International, hefur ákveðið að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands.

Í tilkynningu um framboðið segir að Bæring hafi unnið sig til æðstu metorða síðastliðin 25 ár í starfi á Íslandi, í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu. Bæring hefur víðtæka reynslu á stórum markaðssvæðum og verið ábyrgur fyrir fyrirtækjum með allt að 17 þúsund manns í vinnu og með árlega veltu frá 150 til 450 milljörðum króna.

Bæring er fæddur á Patreksfirði 22. nóvember 1955. Á yngri árum starfaði hann m.a. við sjómennsku, í byggingaiðnaði og sölumennsku. Árið 1984 fluttist hann til Oregon og stundaði þar nám í viðskiptafræði við University of Oregon til 1987. Bæring er giftur Rose Olafsson bæjarstjóra og á sex börn og sex barnabörn.

Bæring segir að forseti Íslands eigi að vera óháður stjórnmálaöflum og hagsmunasamtökum til að hann geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir sem varða hagsmuni þjóðarinnar.