Skortur er á gagnsæi í ákvörðunum Seðlabanka Íslands við afgreiðslu undanþága frá lögum um gjaldeyrismál að mati Birgis Tjörva Péturssonar lögmanns. Morgunblaðið greinir frá þessu á forsíðu sinni í dag.

Birgir Tjörvi segir í samtali við Morgunblaðið að hlutverk Seðlabankans hafi breyst með tilkomu haftanna og bankinn sinni nú eftirliti að hluta, ólíkt því sem var fyrir tíð haftanna. „Nú þarf leyfi hjá Seðlabankanum til ráðstafana sem við eðlilegar aðstæður væru frjálsar. Þessu verður auðvitað ekki lýst öðruvísi en sem ófremdarástandi," segir Birgir Tjörvi.

Hann telur nauðsynlegt að taka reglurnar og framkvæmd þeirra til heildarendurskoðunar og segir afgreiðslutíma SÍ á undanþágubeiðnum upp á átta vikur í hið minnsta sé óeðlilega langur. Þá skorti verulega á um hvaða sjónarmið ráði niðurstöðu. Birgir Tjörvi bendir á að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi sagt að gjaldeyrishöft muni líklegast verða áfram á Íslandi næstu árin.

Nauðsynlegt sé því að huga betur að framkvæmd haftanna samhliða vinnu stjórnvalda að því að aflétta þeim. ,,Fyrst við þurfum að búa við höftin um lengri eða skemmri tíma, þá er mjög brýnt að framkvæmdin á reglunum sé eins og best verður á kosið. Að farið sé að ýtrustu stjórnsýslureglum, að ferlið sé opið og gagnsætt og að málsmeðferð dragist ekki óþarflega á langinn þannig að takmarkanir séu eins lítið íþyngjandi og frekast er unnt, innan ramma reglnanna," segir Birgir Tjörvi í samtali við Morgunblaðið.