Bandarísk stjórnvöld hafa óskað eftir því að Kína gerist aðili að Alþjóðaorkumálastofnuninni (IEA), sem komið var á fót í kjölfar olíukreppunnar á áttunda áratug síðustu aldar og átti að aðstoða þróuð ríki til að kljást við framboðsvanda á olíumarkaðnum.

Daniel Sullivan, aðstoðarorkumálaráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti þetta á ráðstefnu sem haldin var í Peking í dag. Hann sagði að innganga Kína í IEA myndi efla getu stofnunarinnar til að fást við hækkandi olíuverð á heimsmarkaði.

Stjórnmálaskýrendur segja aðildarboð Bandaríkjanna endurspegla viðurkenningu þróaðri ríkja heims á þeirri staðreynd að án þátttöku Kína og Indlands muni smám saman draga úr áhrifamætti alþjóðastofnana á borð við IEA.

Sum ríki hafa lýst yfir áhyggjum sínum af orkustefnu Kínverja í Afríku og Mið-Asíu. Sullivan segir að með inngöngu Kína í IEA væri hægt að draga úr þeim áhyggjum.

Kínverskir embættismenn segja að þeir vilji starfa náið með IEA en hins vegar geti Kína ekki gerst aðildarríki að stofnuninni þar sem hún sé hluti af Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD), sem samanstendur af ríkustu þjóðum heims sem öll hafa skuldbundið sig „lýðræðislegum stjórnarháttum og markaðsskipulagi".

Bandarískir embættismenn segja að hægt væri að breyta stofnskrá IEA í því augnamiði að greiða fyrir inngöngu Kína og Indlands í stofnuninna.