Bandaríkin:

Áframhaldandi veiking Bandaríkjadalsins og áhyggjur vegna lélegra sölutala Wal-Mart verslananna hafa orðið til þess að markaðir í Bandaríkjunum lækkuðu meira en gerst hefur í marga mánuði, segir í frétt Dow Jones.

Dow Jones vísitalan lækkaði um 1,29% og lauk í 12.121,71, en vísitalan hefur ekki lækkað meira síðan í júlí.

Nasdaq vísitalan lækkaði um 2,21% og lauk í 2405,92, og hefur ekki lækkað meira síðan í júní.

S&P 500 vísitalan lækkaði um 1,36% og lauk í 1381,90 og hefur ekki lækkað meira síðan í júní.

NYSE vísitalan lækkaði um 112,84 stig og lauk í 8820,59. Goldman Sachs Group lækkaði um 4,2%, Merrill Lynch lækkaði um 3,7% og Lehman Brother Holdings lækkaði um 3,6%.

Slakar sölutölur Wal-Mart verslananna komu talsvert á óvart, en þær þykja hafa mikla þýðingu við mat á markaðsástandi í Bandaríkjunum. Veiking Bandaríkjadalsins hefur einnig valdið áhyggjum um að seðlabankinn muni hægja á lækkun stýrivaxta. Til að bæta enn á áhyggjur fjárfesta þá hækkaði hráolíuverð í gær.

Wal-Mart lækkaði um 2,7%, en fyrirtækið hefur tilkynnt að sala í nóvember muni dragast saman og hefur það ekki gerst í áratut.

Ford Motor lækkaði um 4,2%, en fyrirtækið tilkynnti að það myndi taka 18 milljarða Bandaríkjadala lán í lok árs.

Google, sem er skráð á Nasdaq, lækkaði um 4%, en tímaritagrein birtist í gær sem segir að fjárfestar hafi ofmetið bréf í fyrirtækinu og að tekið hafi að hægja á vexti fyrirtækisins.