Bandaríkjastjórn hyggst herða takmarkanir á komufarþega til landsins vegna útbreiðslu Omíkron-afbrigðisins. Reglurnar eru nú með þeim hætti að einungis fullbólusettir geta ferðast til Bandaríkjanna. Jafnframt þurfa komufarþegar að framvísa neikvæðum niðurstöðum úr Covid-19 prófi við komuna til landsins og má prófið ekki vera eldra en þriggja daga gamalt.

Nú er Bandaríkjastjórn hins vegar að skoða þann möguleika að herða ferðatakmarkanir enn frekar og krefja alla komufarþega um neikvæða niðurstöðu úr Covid-19 prófi og að niðurstaða prófsins megi hámark vera sólarhringsgömul. Í frétt Reuters segir að nýju takmarkanirnar myndu gilda bæði fyrir bandaríska og erlenda ríkisborgara.

Ríkisstjórnin er einnig með til skoðunar að skylda komufarþega í annað Covid-19 próf 3-5 daga eftir komuna til landsins. Eins og reglurnar eru í dag þurfa einungis óbólusett börn að fara í slík próf.

Bretar hafa nýlega tekið upp hertar ferðatakmarkanir og skylda nú alla komufarþega í PCR-próf innan tveggja daga frá komu til landsins. Auk þess þurfa komufarþegar að vera í sóttkví þar til neikvæð niðurstaða fæst úr prófinu. Viðskiptablaðið greindi frá þessu í gær, en hertar ferðatakmarkanir Breta hafa haft neikvæð áhrif á flugbókanir, að sögn easyJet.