Meginþorri Bandaríkjamanna á móti því að takmarka stærðir gosdrykkjamála á veitingastöðum vestanhafs líkt og gert hefur verið í New York borg.

Í nýrri könnun Gallup kemur fram að 70% Bandaríkjamanna vilji ekki banna stórar gosdrykkjaumbúðir. Dómari í New York fylki ógilti ákvörðun Michael Bloomberg, borgarstjóra New York, um að banna glös stærri en 16 únsur, sem er um hálfur lítri, daginn áður en bannið átti að taka gildi. Sú ákvörðun bíður nú úrskurðar annarra dómstóla.

Um 80% þeirra sem styðja Repúblikanaflokkinn eru á móti slíku banni og um 62% þeirra sem styðja Demókrataflokkinn. Það er í takt við umræðuna vestanhafs vegna bannsins þar sem hægri menn hafa ítrekað gagnrýnt það sem óþarfa afskipti hins opinbera af borgurunum.