Bandarísk fyrirtæki og fjármálastofnanir hafa nýtt sér fjárþurrð í kjölfar skuldakreppunnar í Evrópu til að kaupa eignir á góðum afslætti. Margir bankar hafa þurft að ná sér í aukið lausa fé og þurft að selja frá sér eignir. Við slíkar aðstæður geta þeir sem eiga peningana náð verðinu vel niður enda samningsstaða þeirra mun betri. Um þessa stöðu er fjallað í New York Times.

Samkvæmt greinanda hjá Morgan Stanley, Huw van Steenis, verða evrópskir bankar að losa um eignir að verðmæti 3000 milljarða Bandaríkjadali á næstu átján mánuðum. Dagskipunin er að þeir verði að minnka efnahagsreikning sinn til að ná í aukið fé oft að fyrirskipun eftirlitsaðila.

Greint er frá því að Blackstone Group  hafi keypt fasteignalán af þýska Commerzbank fyrir 300 milljónir Bandaríkjadali með veði í eignum eins og Mondrian South Beach hótel í Flórida og fjórum Sofitel hótelum í Chicago, Miami, Minneapolis og San Franscisco.