Stjórnendur alþjóðalega matsfyrirtækisins Standard & Poor's (S&P) segja að bandarísk stjórnvöld ætli að höfða mál gegn fyrirtækinu vegna þeirra lánshæfiseinkunna sem það gaf svokölluðum undirmálslánum árið 2007. Í grófum dráttum voru þetta fasteignalán sem veitt voru fólki með lítið lánstraust og átti í erfiðleikum með að standa undir skuldbindingum sínum. Verðmæti veða af þessu tagi hrundi í verði í aðdraganda fjármálakreppunnar og má segja að þau hafi ýtt henni af stað.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir málið í vinnslu innan bandaríska dómsmálaráðuneytisins. Ef af verður þá verður þetta fyrsta málshöfðunin vegna lánshæfiseinkunna.

Bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal bætir því við að viðræður hafi átt sér standa á milli ráðamanna í Bandaríkjunum og stjórnenda matsfyrirtækisins. Þegar upp úr þeim slitnaði var ákveðið að höfða mál.

Alþjóðleg matsfyrirtæki hafa sætt harðri gagnrýni í eftirmála kreppunnar vegna mats þeirra á eignum sem töldust ótrygg og hrundu í verði. Í umfjöllun BBC um málið segir að útgefendur verðbréfanna og annarra eigna greiði matsfyrirtækjum fyrir matið. Vægi einkunnarinnar hefur svo úrslitavald um lánshæfi viðkomandi útgefanda. Hvað undirmálslánin varðar þá var S&P fengið til að meta skuldabréfavafninga sem innihéldu mörg þúsund fasteignalán einstaklinga og líkurnar á endurheimtum þeirra. Vafningarnir fengu oft á tíðum hæstu einkunn.