*

laugardagur, 15. ágúst 2020
Innlent 12. ágúst 2018 11:01

Bankanir hagnast á aukinni verðbólgu

Verðtryggðar eignir stóru bankanna þriggja eru um 349 milljörðum krónum meiri en verðtryggðar skuldir þeirra.

Ástgeir Ólafsson

Hreinar verðtryggðar eignir bankanna þriggja námu í lok júlí 1.032 milljörðum króna á meðan verðtryggðar skuldir þeirra námu 683 milljörðum. Munurinn á verðtryggðum eignum og skuldum bankanna, svokallaður verðtryggingarjöfnuður, var því jákvæður um 349 milljarða í lok júní. Þessi verðtryggingarskekkja opnar á þann möguleika að innlánastofnanir hagnist á óvæntri verðbólgu. Miðað við núverandi jöfnuð þá munu bankarnir hagnast um 3,49 milljarða ef verðbólga eykst um 1%.

Verðtryggingarjöfnuður bankanna dróst þó saman um 8,6% frá áramótum eða um tæpa 33 milljarða. Verðtryggingarjöfnuður Arion banka nam 121 milljarði og dróst saman um 12 milljarða frá því í lok árs 2017. Jöfnuðurinn er minnstur hjá Íslandsbanka en þar nam hann tæpum 17 milljörðum og lækkaði um tæpa 11 milljarða. Mestur er þó jöfnuðurinn hjá Landsbankanum en hann nam um 211 milljörðum í lok júní þrátt fyrir að hann hafi minnkað um 10 milljarða frá áramótum.

Dr. Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, segir að ástæðu þess hve verðtryggingarjöfnuðurinn er mikill megi að hluta rekja til þess að á árunum 1995-1998 var lagt bann við að verðtryggja skammtímaskuldir á Íslandi. Hefur þetta orðið til þess að erfitt er fyrir bankana að verðtryggja innlán á sama tíma og nánast öll löng útlán hafa verið verðtryggð. Að sögn Ásgeirs þarf þetta þó ekki að vera óheppilegt þar sem verðbólguskellir hafi sögulega fylgt samdráttarskeiðum á Íslandi. Það sé því ekki endilega óheppilegt að bankarnir fái aukið eigið fé til skamms tíma í erfiðari aðstæðum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.