Minnkandi sjálfstæði seðlabanka heimsins eykur hættuna á gjaldmiðlastríði þar sem þjóðir freistast til að stuðla að lægra gengi síns gjaldmiðils í samkeppni við önnur gjaldmiðlasvæði. Þetta er mat Jens Weidmann, aðalbankastjóra þýska Bendesbank, og greint er frá í Financial Times í dag. Í fréttinni er haft eftir honum að stærstu hagkerfi heimsins hafi forðast þessa keðjuverkun í kjölfar fjármálakreppunna.

Weidmann nefnir Ungverjaland og Japan sem dæmi. Þar hefur pólitísk íhlutun aukist þegar kemur að peningapólitík og um leið minnkar sjálfstæði seðlabankanna. Meiri áhersla er lögð á gengismál en að ná verðbólgumarkmiðum. Um leið og gengið sígur standa útflutningsgreinar betur að vígi í samkeppni við önnur gjaldmiðlasvæði. Í viðkvæmu ástandi getur ástandið verið viðkvæmt stuðli einn seðlabanki að veikara gengi en efni standa til.