Gunnar Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Baugs, hefur verið valinn í stjórn House of Fraser á nýjan leik eftir að hafa hætt í stjórninni í fyrra, að því er segir í frétt The Mail on Sunday.

Í fréttinni segir að margir hafi haldið að eftir að bankar hafi tekið yfir Baug mundi ekki sjást meira til félagsins. Hins vegar sé staðan sú að tveir helstu stjórnendur félagsins hafi hljóðlega náð aftur til sín áhrifum í nokkrum af félögunum sem Baugur stýrði.

Í fréttinni segir að Gunnar sitji nú í sjö stjórnum, en auk stjórnar House of Fraser sitji hann meðal annars í stjórnum Aurum Holdings, sem eigi skartgripasalann Goldsmiths, og Corporal Limited, sem eigi leikfangaverslunina Hamleys.

Gunnar er sagður vera enn í stjórn móðurfélags House of Fraser, Highland Group, þar sem hann hafi verði frá árinu 2006. Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi stjórnarformaður Baugs, sitji einnig í þeirri stjórn auk þess að vera stjórnarformaður matvörukeðjunnar Iceland.

Í frétt The Mail on Sunday er sagt að fyrrum starfsmenn Baugs séu reiðir yfir því að Gunnar og Jón Ásgeir séu að ná áhrifum á nýjan leik, þar sem starfsmennirnir hafi enn ekki fengið greiddan uppsagnarfrest.