Baugur hefur byggt upp hlut í fyrirtækinu undanfarnar vikur og var greint frá því á mánudag að hluturinn væri kominn upp í 8,08%. Baugur mun hafa keypt hlutina á tæplega 22 Bandaríkjadali og er því heildarverðið um 250 milljónir Bandaríkjadala eða 14,7 milljarðar króna, að því er kemur fram í fréttinni.

Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs Group, segir að Baugur hafi áður lýst yfir áhuga á Bandaríkjamarkaði og sé nú fyrirtækið að skoða fjárfestingatækifæri þar, sem og annars staðar.

"Við teljum Saks vera merkilegt fyrirtæki og áhugaverðan fjárfestingakost og höfum við í talsverðan tíma verið að vinna í þessu máli," segir Gunnar.

Óvíst hvort Baugur auki við sig

Aðspurður um hvort fyrirtækið hyggist auka hlut sinn frekar í fyrirtækinu eða hvort stefnt sé á yfirtöku, segir Gunnar að allt sé óvíst um þau málefni.

Þá segir í fréttinni að hluturinn muni auðvelda Baugi að koma breskum vörumerkjum í eigu fyrirtækisins, á borð við Karen Millen, inn á Bandaríkjamarkað. Gunnar segir það ekki hafa verið markmiðið með fjárfestingunni, en að ljóst sé að samlegðaráhrif séu til staðar.

Breska viðskiptamódelið

Saks rekur 54 verslanir í hæsta gæðaflokki víða um Bandaríkin, en frægust þeirra er þó vafalaust Saks 5th Avenue. Sú verslun á sér yfir hundrað ára sögu og á sér marga fræga viðskiptavini. Leikkonan stelsjúka, Wynona Rider, var einmitt gripin glóðvolg við búðarhnupl í téðri verslun.

Baugur hefur þar til nú að mestu einbeitt sér að smásölumarkaðinum í Bretlandi, en Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í nóvember á síðasta ári að Baugur hygðist flytja breska viðskiptamódelið til Bandaríkjanna og hefja þar starfsemi árið 2008.

"Það sem við höfum verið að gera í Bretlandi hefur verið að virka mjög vel og enginn vafi að við munum leita eftir tækifærum til að framkvæma hluti með svipuðum hætti í Bandaríkjunum. Það er svo alveg óvíst hversu langan tíma það tekur og hvað mun verða," segir Gunnar.

Þann 19. júlí síðastliðinn var tilkynnt að Baugur Group og meðfjárfestar hefðu lokið kaupum á bandarísku fréttaveitunni NewsEdge.

Ákæruvaldið og glaumgosinn

Í fréttinni kemur fram að Baugsmálið hafi verið Jóni Ásgeiri til vandræða að undanförnu og að ákæruvaldið hafi leitast við að draga upp mynd af Jóni Ásgeiri sem glaumgosa (e. Playboy).

Í fréttinni segir að litið sé á Jón Ásgeir sem færan fjárfesti, en jafnframt ágengan, sem vinni náið með stjórnendum fyrirtækja en sé óspar á gagnrýni ef þeir standi sig ekki sem skyldi.

Miklar breytingar hafa verið gerðar í rekstri Saks á undanförnum árum, en árið 2005 seldi fyrirtækið fjölda verslana sinna og hóf að einblína frekar á verslanir í hærri gæðaflokki, á borð við verslunina á 5th Avenue.

Á síðasta ári sagði Brad Martin, framkvæmdarstjóri Saks til 16 ára, starfi sínu lausu og tók Stephen Sadove við starfinu á síðasta ári. Sala í versluninni við 5th Avenue hefur batnað til muna síðan Sadove tók við stöðunni. Fyrirtækið hefur einnig tilkynnt að höfuðstöðvarnar verði færðar frá Alabama til New York.

"Ríkasti maður heims" meðal hluthafa

Með kaupunum í Saks er Jón Ásgeir kominn í athygliverðan félagsskap, en mexíkóski auðkýfingurinn Carlos Slim og fjölskylda hans eiga 9,3% hlut í Saks, að því er kemur fram í fréttinni.

Hækkun hlutabréfaverðs fjarskiptafyrirtækisins America Movil, sem er í eigu Slim, hefur orðið til þess að nú er talið að eignir Slim séu metnar á meira en eigur tölvumógúlsins Bill Gates, sem fram að þessu hefur verið talinn ríkasti maður heims.