Baugur Group hefur selt hluti sína í fjárfestingar- og fjármálafyrirtækjum annars vegar og fjölmiðla- og fjarskiptafélögum  hins vegar og mun nú einbeita sér alfarið að fjárfestingum í smásölu.

Þessi endurskipulagning á eignasafni Baugs nú kemur í kjölfar breytinga á stjórnendateymi og sölu fasteignasafns félagsins í árslok 2007.

Eignirnar eru seldar til tveggja sjálfstæðra félaga og umfang viðskiptanna er um 65 milljarðar króna.

Félögin tvö sem kaupa umræddar eignir Baugs eru fjárfestingarfélagið Stoðir Invest og Styrkur Invest. Stoðir Invest er í eigu helstu hluthafa Baugs og kaupir hluti Baugs í fjölmiðla- og fjarskiptafélögum, þ.m.t. í 365 og Teymi.

Styrkur Invest er í eigu Kaldbaks ehf., fjárfestingarfélags Samherja, sem á 34%, og helstu hluthafa Baugs, og kaupir hluti Baugs í fjárfestingar- og fjármálafyrirtækjum, þ.m.t. FL Group. Kaldbakur á 34% í Styrk og Baugur Group verður ekki hluthafi í þessum félögum.

Endurskilgreinir landfræðilegan markað

Auk þess að takmarka fjárfestingar Baugs við smásölugeirann munu breytingarnar endurskilgreina landfræðilegan markað félagsins, þar sem u.þ.b. 85% fjárfestinga Baugs verða nú í Bretlandi, Bandaríkjunum og Skandinavíu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu á morgun, þriðjudag. Áskrifendur geta nú þegar lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .