Bein fjárfesting erlendra aðila á Íslandi nam 233,5 milljörðum króna á árinu 2007. Á árinu 2006 nam hún 278,2 milljörðum króna. Bein fjármunaeign erlendra aðila á Íslandi nam 749 milljörðum króna í árslok 2007 en nam 546,6 milljörðum króna í árslok 2006.

Þetta kemur fram á vef Seðlabankans.

Í Morgunkorni Glitnis segir að bein fjármunaeign Íslendinga erlendis nam 1.732 milljörðun króna um síðustu áramót. Vegna erlendra skulda hefur hrein erlend staða þjóðarbúsins hins vegar versnað undanfarin ár þrátt fyrir að Íslendingar hafi fjárfest meira erlendis en útlendingar hérlendis. Erlend staða er þó betri en opinberar tölur gefa til kynna, samkvæmt Morgunkorni.

Stærstur hluti beinnar fjárfestingar Íslendinga erlendis var á sviði fjármálaþjónustu. Helmingur beinnar fjármunaeignar erlendra aðila hér á landi um áramótin var í fyrirtækjum í fjármálaþjónustu. „Utan fjármálageirans er stærstur hluti erlendrar fjármunaeignar í stóriðju, alls tæpir 187 ma.kr. í árslok 2007. Til samanburðar var eign erlendra aðila í stóriðju á Íslandi 30 ma.kr. í lok ársins 2001. Segja má að heppilegra væri að fjármunaeign erlendra aðila hér á landi dreifðist á fleiri atvinnugreinar en stóriðju, og í heild væri æskilegt auka hana. Erlendir aðilar hafa þó ekki verið umsvifamiklir meðal eigenda í fjármála- og rekstrarfélögum í Kauphöllinni, og er skýring þess að einhverju leyti sú að mörgum erlendum fjárfestum hugnast ekki sú aukaáhætta sem fylgir því að vera með hlutabréf í íslenskum krónum í eignasafni sínu,“ segir í Morgunkorni.