Fasteignaverðshækkanir á heimsvísu hafa verið að hægja á sér á undanförnum mánuðum og er árs fasteignaverðbólgan nú að meðaltali 4,8% samkvæmt tölum matsfyrirtækisins Knight Frank. Það er talsverð lækkun því 12 mánaða fasteignaverðbólgan var 6,1% á öðrum ársfjórðungi 2008. Bein verðlækkun er þó mest í Danmörku, eða -9,6%.

Mest hefur hins vegar dregið úr hækkunum í Litháen þar sem vístalan hefur fallið mest, en þar var hún líka orðin mjög há í fyrra. Er verðfall að sjá í um helmingi þeirra ríkja sem eru inni í vísitölumælingum Knight Frank. Í úttekt Knight Frank sem birt var í byrjun mánaðarins hafa Litháen, Danmörk og Nýja-Sjáland bæst í hóp ríkja með hratt verðfall fasteigna.

Fasteignaverðsvístalan í Litháen er nú 24,1% lægri en á sama tíma í fyrra. Verst er ástandið í Norður-Evrópu, Eystrasaltslöndunum og í Bandaríkjunum. Sýnu verst er ástandið þó í Danmörku þar sem fasteignaverðið hefur beinlínis fallið um -9,6% miðað við alþjóðlega fasteignaverðsvísitölu Knight Frank.

Fyrirtækið segir lánakrísuna hafa komið hart niður á Danmörku og mikið tap og Roskilde Bank lýsi því vel. Þá séu tveir þriðju hlutar danskra banka nú á athugunarlista danska fjármálaeftirlitsins. Í Bandaríkjunum lækkaði vísitalan um 3,3% á öðrum ársfjórðungi 2008 og hefur fasteignaverðsvísitalan því lækkað um 16,8% miðað við heilt ár. Er það önnur mesta lækkun vísitölunnar á heimsvísu.

Mestar hækkanir í Búlgaríu

Búlgaría toppar aftur á móti fasteignaverðshækkanirnar fjórða ársfjórðunginn í röð með 32,2% hækkun vísitölunnar miðað við heilt ár, en þar mældist hækkunin á sama tíma í fyrra 33,7%. Slóvakía, Rússland, Tékkland og Hong Kong voru einnig með mikinn vöxt nú, eða 25% hækkanir miðað við heilt ár.

Nick Barnes, yfirmaður alþjóðarannsókna hjá Knight Frank, segir að fasteignaverðsvísitalan á heimsvísu bendi til áframhaldandi lækkana vísitölunnar. Í flestum Evrópulöndum sé vísitalan nú orðin mjög lág og víða með neikvæðar tölur í þróun fasteignaverðs. Þetta sé þó ekki algilt, því að á sumum svæðum séu miklar verðhækkanir, eins og í Asíu og í sumum ríkjum Austur-Evrópu. Aftur á móti sýni 24,1% vísitölulækkun í Litháen að mikil áhætta sé í spilunum, ekki síst hvað varðar vaxtakostnað.

Alþjóða lánakrísan spili líka stórt hlutverk í löndum eins og Spáni, Danmörku, Bretlandi og á Írlandi. Noregur siglir hins vegar lygnan sjó sem stendur, en þar kunna að vera blikur á lofti. Í Þýskalandi hefur fasteignaverðbólgan fallið úr 4,4% í 2,5%, en minni spenna er á þeim markaði en víða þar sem ríkari hefð er hjá Þjóðverjum að leigja sér húsnæði en að kaupa.

Mikill samdráttur hefur verið í fasteignasölu á Spáni. Í maí féll salan um 34,3% og 29,6% í júní. Telur Knight Frank að það geti bent til enn frekara verðfalls á fasteignum en orðið er.