Vöxtur í íbúðarfjárfestingu undanfarið hefur endurspeglast í stórauknum innflutningi og sölu á byggingarefni. Nýjustu tölur benda til þess að vöxtur íbúðarfjárfestingar gæti reynst verulegur á seinni hluta þessa árs. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka .

„Á fyrri hluta þessa árs var verulegur vöxtur í jafnt innflutningi á ofangreindu byggingarefni, sölu sements sem og íbúðafjárfestingunni. Jókst innflutningur á steypustyrktarjárni um nær 61% milli ára, sementssalan um 22%, innflutningur miðstöðvarofna um 12% og fjárfesting í íbúðarhúsnæði um ríflega 17%,“ segir meðal annars í útgáfu Greiningar Íslandsbanka.

Nýjustu tölur fyrir hagvísina þrjá; Innflutt steypustyrktarjárns, innflutta miðstöðvarofnar og sementssölu, sýna raun samdrátt milli ára í innflutningi steypustyrktarjárns eða -19% og miðstöðvarofna -45% á 3. ársfjórðungi, en hins vegar tæplega 19% vöxt í sementssölu á sama tímabili.

„Þar ber hins vegar að hafa í huga að verulegar sveiflur geta verið í innflutningi byggingarefnis milli fjórðunga, og horft til fyrstu níu mánaða ársins hefur innflutningur steypustyrktarjárns t.d. aukist um 27% frá sama tímabili í fyrra en innflutningur miðstöðvarofna dregist saman um tæp 8%. Meiri samtímafylgni er svo eðli málsins samkvæmt milli sementssölu og fjárfestingar í byggingum, þar á meðal íbúðarhúsnæðis,“ er einnig tekið fram.

Í takt við spá bankans

Vöxtur innflutnings á steypustyrktarjárni og á sölu sements gefur Greiningu Íslandsbanka til kynna að vöxtur íbúðarfjárfestingar muni mælast „myndarlegur“ í bráðabirgðatölum fyrir 3. ársfjórðung sem að Hagstofan birtir á næstunni.

„Í þjóðhagsspá okkar í september síðastliðnum spáðum við tæplega 18% vexti íbúðafjárfestingar í ár. Nýjustu tölur benda til þess að sú spá verði líklega nokkuð nærri lagi,“ segir að lokum.