Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, hefur skipað fyrstu stjórn nýrrar sjúkratryggingastofnunar sem tekur að fullu til starfa í haust. Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri, verður formaður stjórnar sjúkratryggingastofnunar, sem ætlað er að semja um og kaupa heilbrigðisþjónustu fyrir hönd heilbrigðisráðuneytisins. Stofnunin varð til með lögum sem tóku gildi um áramót. Gert er ráð fyrir að sjúkratryggingar hefji að fullu starfsemi sína í haust. Aðrir í stjórn stofnunarinnar eru: Magnús Árni Magnússon, hagfræðingur, Þórir Haraldsson, lögfræðingur, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur og Arna Lára Jónsdóttir, stjórnmálafræðingur.