Bílabúð Benna vinnur nú að því hörðum höndum að tryggja sér eitthvert annað bílamerki í stað Chevrolet og mun vera nálægt því að tryggja sér Opel-umboðið samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

General Motors mun sem kunnugt er hætta sölu Chevrolet bíla í Evrópu frá og með árinu 2016 en Bílabúð Benna hefur sem kunnugt er verið með umboðið fyrir Chevrolet bíla undanfarin ár. Opel er einnig í eigu General Motors sem mun ætla að leggja meiri áherslu á hina þýsku Opel bíla í Evrópu.

Opel hefur átt mjög á brattann að sækja hér á landi í meira en áratug en Opel-umboðið í Ármúla er í eigu BL. Því mun það þykja frekar líklegt að Opel-umboðið færist frá BL til Benna ef samningar nást um það en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa samningaviðræður verið í gangi í nokkurn tíma. Ekki fengust nánari upplýsingar frá BL eða Bílabúð Benna um stöðu mála.

Nánar er fjallað um málið í Bílablaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu í vikunni. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .