Verð á bensínlítra á Íslandi fór í dag undir tvöhundruð krónur. N1 lækkaði bensínverð fyrst um fjórar krónur á lítrann og verð á dísilolíu um þrjár krónur. Eftir lækkunina kostar bensínlítrinn í sjálfsafgreiðslu 199,90 krónur og lítrí af dísilolíu 203,90 krónur. Kemur þessi lækkun í kjölfar lækkandi heimsmarkaðsverð á olíu á síðustu dögum.

Samkvæmt frétt RÚV um málið fór verðið á bensínlítranum fyrst yfir 200 krónur 22. febrúar 2010 en hæst var verðið í febrúar 2013 eða um 279 krónur á lítrann. Verðlækkanir voru hjá Orkunni og Atlantsolíu í kjölfar verðlækkunar N1 og er bensínverð aðeins lægra þar en hann kostar enn yfir 200 krónur hjá ÓB, Olís og Skeljungi. Hæst er verðið hjá Skeljungi eða tæpar 204 krónur.

Mikil lækkun hefur verið á heimsmarkaðsverði olíu síðustu daga en Brent Norðursjávarolía hefur ekki verið ódýrari í fimm og hálft ár.