Bergþóra Þorkelsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri innflutnings- og heildsölufyrirtækisins Fastus. Hún tekur við af Bjarna Halldórssyni, sem verður fjármálastjóri fyrirtækisins.

Fram kemur í tilkynningu að Bergþóra var áður framkvæmdastjóri Líflands og Kornax frá árinu 2008. Hún var áður markaðs- og sölustjóri hjá Líflandi frá árinu 2005. Þá var hún framkvæmdastjóri Ego frá 2003 til 2005.

Bergþóra er menntaður dýralæknir en hún hefur einnig stundað nám í markaðsfræðum við Chartered Institut of Marketing í Bretlandi og í rekstrar- og viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Eiginmaður Bergþóru er Auðunn Hermannsson, mjólkurverkfræðingur og mjólkurbústjóri MS í Reykjavík. Þau eiga tvær dætur.

Fastus ehf. er innflutnings- og heildsölufyrirtæki sem sérhæfir sig í sölu á tækjum og búnaði fyrir rannsóknarstofur, sjúkrahús, dvalar- og hjúkrunarheimili og aðrar heilbrigðisstofnanir, hótel, veitingastaði, mötuneyti og þvottahús. Starfsemin skiptist í þrjú meginsvið: veitinga- og iðnaðarsvið, heilbrigðistæknisvið og tækni- og þjónustusvið.