BG Partners, sem eiga 51 prósent hlut í Skeljungi, vilja kaupa allt það hlutafé sem félagið á ekki í fyrirtækinu.

Guðmundur Örn Þórðarson, stjórnarformaður Skeljungs og einn aðaleigenda BG Partners, staðfesti þetta í samtali við Viðskiptablaðið.

Íslandsbanki auglýsti nýverið 49 prósenta hlut sinn í Skeljungi til sölu í opnu söluferli . Alls bárust átta óbindandi tilboð í hlutinn og voru sex þeirra tekin til greina. Skuldbindandi tilboðum með fyrirvara um áreiðanleikakönnun var síðan skilað inn í gær.

Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka mun það taka nokkra daga að fara yfir tilboðin og sjá hvort þau uppfylli þau skilyrði sem til þeirra voru gerð.

Guðmundur Örn segir að BG Partners eigi forkaupsrétt á því hlutafé sem nú er í opnu söluferli. Félagið þarf þá að jafna það tilboð sem Íslandsbanki ákveður að taka í hlut sinn í Skeljungi.