Hæstiréttur þingfesti í morgun áfrýjun Bandalags háskólamanna á niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli BHM gegn íslenska ríkinu. Á miðvikudaginn komst Héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að lögbann á verkfall félagsmanna BHM hafi ekki brotið lög.

„BHM telur niðurstöðu Héraðsdóms ranga og telur að ekki sé hægt að nálgast álitaefni málsins á þann hátt sem Héraðsdómur gerði. Bann við verkföllum og svipting samningsréttar sé ekki á meðal þeirra úrræða til lausnar kjaradeilum sem stjórnvöldum á hverjum tíma standi til boða.

Verkfallsrétturinn sem hluti samningsréttar og sem órjúfanlegur þáttur félagafrelsis stéttarfélaga er varinn af stjórnarskrá Íslands. Takmörkun slíks réttar er takmörkun á stjórnarskrárvörðum mannréttindum. Gera má ráð fyrir því að málflutningur fyrir Hæstarétti fari fram fyrri hluta ágústmánaðar,“ segir í tilkynningu BHM.