Þrjár stærstu bílaleigurnar veltu 7,2 milljörðum króna árið 2012. Innan ferðaþjónustunnar jukust tekjur bílaleiga mest á árunum frá 2009 til 2012, eða um 124%.

Í dag eru 140 bílaleigur með starfsleyfi og hefur þeim fjölgað um 120% á sex árum. Forstjóri Bílaleigu Akureyrar segir að margar af nýju bílaleigunum leigi út mjög gamla og illa útbúna bíla, jafnvel ótryggða og óskoðaða.

Alls eru 140 fyrirtæki skráð með rekstrarleyfi til að reka bílaleigu samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu. Árið 2008 voru 64 fyrirtæki með rekstrarleyfi sem þýðir að bílaleigum hefur fjölgað um tæp 120 prósent á síðustu sex árum. Rekstrarleyfin eru gefin út í fimm ár í senn og þurfa bílaleigur því að endurnýja þau reglulega. Það er Samgöngustofa sem veitir bílaleigum rekstrarleyfi og kostar það 25 þúsund krónur. Stofan sinnir einnig eftirliti með því að skilyrði rekstrarleyfis séu uppfyllt. Samkvæmt núgildandi lögum eru ekki gerðar strangari kröfur til bílaleigubíla en annarra bíla í umferðinni. Ef bílarnir komast í gegnum skoðun þá er það hlutverk lögreglunnar að fylgjast með því að óhæfir bílar séu ekki í umferðinni.

Bílaleigubíla þarf hins vegar að tryggja sérstaklega og samkvæmt upplýsingum frá VÍS er ekki óalgengt að að bílaleiguiðgjald sé tvö- til þrefalt hærra en venjulegt iðgjald ábyrgðartryggingar ökutækis.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .