Innan tveggja ára fer Rússland fram úr Þýskalandi sem stærsti einstaki bílamarkaðurinn í Evrópu. Framleiðendur vilja allir sneið af markaðnum.

Tíunda árið í röð jókst bílasala í Rússland. Árið 2007 seldust þar samtals 2,3 milljónir nýrra bíla. Til samanburðar seldust 3.150.000 nýir bílar í Þýskalandi, sem nú er stærsti bílamarkaðurinn í álfunni. Stóru bílaframleiðendurnir í Evrópu vilja gjarnan sinn skerf af vextinum. Þess vegna eru Renault, Ford, GM, Toyota og VW allir að hefja eigin framleiðslu í eigin verksmiðjum í landinu.

Samkvæmt tölum frá PriceWaterhouseCoopers vörðu Rússar tæpum 3.000 milljörðum ÍSK í nýja bíla á árinu 2007 sem var 67% aukning frá árinu 2006. Því er spáð að á þessu ári aukist salan um 13% í bílum talið.

Stærsti hluti bílanna sem seldust í Rússlandi 2007 voru af erlendum uppruna, eða um 1,6 milljónir bíla, sem er 61% aukning frá 2006. Á þessu ári er jafnframt búist við að stærsti hluti söluaukningarinnar verði bílar sem ekki eru af rússneskri gerð.

Mest seldi bíllinn í fyrra var Ford Focus en á hæla hans komu Renault Logan, Chevrolet Lanos, Hyundai Accent og Daewoo Nexia. Aðeins um 20% bílaeign í landinu gefur fyrirheit um mikinn vöxt á næstu árum, ekki síst á stöðum utan við stóru borgirnar Moskvu og Pétursborg.

Renault hefur verið með framleiðslu í Rússlandi síðan 1998 og keypti nýlega 25% hlut í OAO AvtoVaz, stærstu bílaverksmiðju Rússlands, sem þekkt fyrir framleiðslu á Lada. Sameinuð fyrirtæki ætla að framleiða alþýðubílinn Logan fyrir markaði í Austur-Evrópu. Carlos Ghosn, yfirmaður Renault/Nissan hefur einnig gefið loforð um að veita fjármagni til Lada svo merkið nái til vegs og virðingar.

Þetta kemur fram í helgarblaði Viðskiptablaðsins.