Bílasala á meginlandi Evrópu er hugsanlega ýmist að ná botninum eða að koma til baka, að sögn Robert Shanks, fjármálastjóra bandaríska bílaframleiðandans Ford. Fyrirtækið hagnaðist um 2,44 milljarða dala á fyrsta ársfjórðungi sem var 15% aukning á milli ára.

Sala á nýjum bílum undir merkjum Ford í Norður-Ameríku dregur afkomuna upp á móti samdrætti í Evrópu. Í viðtali við Shank um uppgjörið á vef bandaríska tímaritsins Forbes kemur fram að Ford hafi tapað 462 milljónum dala vegna samdráttar í sölu á nýjum bílum í Evrópu og megi reikna með að á endanum muni það nema 2 milljörðum dala á árinu öllu. Þá er staðan lítið betri hjá keppinautum fyrirtækisins á Evrópumarkaði, sem margir hverjir hafa ekki séð það svartara í 20 ár.

Shank segir í viðtalinu að staðan sé orðin það slæm að nú hljóti hún að fara að batna. Reyndar séu vísbendingar um það nú þegar að koma fram.