Forsvarsmenn Bílasölu Reykjavíkur hafa ákveðið að lækka sölulaun um 20% af öllum bifreiðum sem seldar verða hjá fyrirtækinu á næstunni, segir í fréttatilkynningu.

Með þessu vill fyrirtækið leggja sitt af mörkunum til að mæta því erfiða ástandi sem skapast hefur í kjölfar bankakreppunnar, segir í tilkynningunni.

Einnig er unnið að því, að efla erlend tengsl til þess að undirbúa mögulega sölu notaðra bifreiða til útlanda ef lagabreytingar gera þá leið færa. Slíkt gæti breytt stöðu margra viðskiptavina umtalsvert.

Fjölmargir viðskiptavinir bílasölunnar hafa, líkt og aðrir landsmenn, orðið fyrir miklum fjárhagslegum skakkaföllum m.a. vegna gengisbreytinga og launaskerðinga. Hluti þessa fólks er í mikilli neyð og þarf að selja eigur sínar hratt með tilheyrandi virðisrýrnun.