Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi ráðherra fyrir Alþýðubandalagið og náttúrufræðingur, leggur til ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Fer hann meðal annars yfir söguna og að árið 1978 hafi tekið tvo mánuði að mynda ríkisstjórn, sem hafi þrátt fyrir drjúgan meirihluta sprungið 13 mánuðum seinna vegna hallarbyltingar í Alþýðuflokknum. Jafnlangan tíma tók að mynda ríkisstjórn eftir kosningar á aðventu 1979.

Ekki ólík staða og áður þegar tók tvo mánuði að semja

„Í hvorugu tilvikinu var um hreinar línur að ræða milli hægri og vinstri á Alþingi, og staðan var að því leyti ekki ólík því sem nú er. Allt tal um myndun fimm flokka ríkisstjórnar frá miðju til vinstri, m.a. með þátttöku Viðreisnar og Pírata, er hugmyndalega út í hött,“ segir Hjörleifur í greininni.

„Það er ráðgáta hvernig flokki eins og VG kom til hugar að reyna að klastra saman ríkisstjórn úr slíkum efnivið. Afar óljós er slík staða og hygmyndir Bjartrar framtíðar, sem kosið hefur að spyrða sig saman við Viðreisn, fyrst og fremst að því er virðist vegna hugmynda beggja um ESB-aðild sem lausnarorð.“

Gamall skóli að segja allt sé betra en íhaldið

Segir hann formann VG virðast fangi eigin yfirlýsinga af þeim gamla skóla að allt sé betra en íhaldið, en kostum um myndun meirihlutastjórnar fari fækkandi.

„Augljóst er að háspenntar hugmyndir VG um skattahækkanir eru ekki líklegar til að fá byr í slíku samstarfi, en einhverjar breytingar á skattkerfinu og hert viðurlög við undanskotum ættu ekki að vera útilokaðar fyrir fram og þá með Framsóknarflokkinn sem líklegan þriðja aðila,“ segir Hjörleifur.

„Um ýmislegt annað ætti að geta náðst góð samstaða milli þessara þriggja flokka, þar á meðal að binda enda á óráðshjal um aðild Íslands að Evrópusambandinu um fyrirsjáanlega framtíð.“