Gosið í Eyjafjallajökli hafði slæm áhrif á ferðamannaiðnaðinn til skamms tíma, en til langs tíma mun það hafa góð áhrif þar sem landið hefur fengið mikla kynningu og fólk mun vilja sjá nýjustu sköpun jarðarinnar.

Þetta segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, í viðtali við Airline Business Magazine sem er eitt helsta tímarit í flugiðnaði á alþjóðavísu.

„Margir heldu að Ísland væri mjög langt í burtu en nú vita menn að það er nokkuð nálægt, hugsanlega of nálægt,“ segir Birki Hólm í viðtalinu og vísar þar til þess þegar gosið í Eyjafjallajökli truflaði flugumferð á meginlandi Evrópu í um miðjan apríl sl.

Þá lýsir Birkir því hvernig Icelandair gerði Glasgow að tengimiðstöð milli Evrópu og Bandaríkjanna með skömmum fyrirvara. Hann segir að þar sem flug yfir Atlantshafið, sem á ensku er kallað transatlantic, sé helsta viðskiptamódel félagsins hafi verið nauðsynlegt að finna flugvöll sem hægt væri að fljúga til og frá bæði Evrópu og Bandaríkjanna. Þannig hafi Glasgow orðið fyrir valinu en Osló hugsaður til vara.

„Við þurftum aldrei að hætta öllu flugi og það var munurinn á okkur og öðrum evrópskum flugfélögum, við gátum flogið allan tímann,“ segir Birkir Hólm.

Þá kemur fram í viðtalinu að um 200 starfsmenn félagsins hafi þurft að færa starfsstöðvar sínar á meðan gosinu stóð, um 180 flugáætlunum hafi verið breytt, rúmlega 100 fréttatilkynningar hafi verið sendar út og félagið hafi fengið á bilinu 3-4 þúsund símtöl daglega. Birkir Hólm tekur þó fram að það hafi verið léttir þegar gosið stöðvaðist, þá helst fyrir starfsmenn félagsins sem unnið höfðu dag og nótt að því að halda flugi félagsins gangandi í sex vikur.

Þá kemur jafnframt fram í viðtalinu að ekki stendur til hjá Icelandair að biðja íslenska ríkið um aðstoð eða bætur vegna þess tjóns sem kann að hafa orðið vegna eldgossins. Birki Hólm áætlar að tjónið nemi um 880 milljónum króna (um 7 milljón Bandaríkjadala).

Um stöðvun flugumferðar í Evrópu segir Birkir Hólm að það hafi verið ýkt viðbrögð að stöðva alla flugumferð og nauðsynlegt sé að fá betri tæki til að mæla dreifingu á öskuskýjum þegar svona tilfelli koma upp.

Sjá viðtalið í heild sinni.