Fyrrverandi kvennafangelsið og núverandi gistiheimilið Bitra hefur verið sett á sölu. Fasteignin er að marga mati þekkt kennileiti enda staðsett rétt við þjóðveginn, 15 km fyrir utan Selfoss. Fangelsið var formlega tekið í notkun í maí 2010 og var þá skilgreint sem opið fangelsi þar sem unnt var að vista 16 fanga.

Árið 2012 var allt húsnæðið aðlagað að rekstri gistiheimilis sem í dag er rekið þar undir nafninu Bitra Guesthouse. Í húsinu eru um 17 herbergi og er landið sjálft sem húsið stendur á um 100 hektarar. Að sögn söluaðila hefur verið stöðugur vöxtur í bókunum á gistiheimilinu og á bókunarsíðunni www.booking.com hefur Bitra fengið 8,5/10 í meðaleinkunn frá viðskiptavinum sínum og góð meðmæli.