Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins birti í morgun grein í Morgunblaðinu þar sem hann benti á að eigi  jafnræðis í framkvæmd laga að gilda, hljóti að vera lögð fram á þingi ákæra á hendur Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra, gegn Gylfa Magnússyni, fyrrverandi viðskiptaráðherra.

Þá fjallar Bjarni um málið í tilkynningu sem send hefur verið fjölmiðlum.

Bjarni segir að þegar lög um ráðherraábyrgð og landsdóm voru endurskoðuð árið 1963 kom fram í umræðum á alþingi að lögin voru hugsuð sem eins konar neyðarhemill fyrir þingið. Mál manna var að ekki væri hætta á misbeitingu, m.a. með hliðsjón af því að þá hafði aldrei komið fram tillaga um beitingu laganna í rúma hálfa öld þrátt fyrir að ýmislegt hefði gengið á í íslenskum stjórnmálum.

„Nú er fyrrverandi ráðherrum gefið að sök að hafa sýnt alvarlega vanrækslu fyrir að hafa ekki haft frumkvæði að því ,,að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir að með dómi Hæstaréttar frá 16. júní 2010 í svonefndu gengistryggingarmáli varð til veruleg hætta fyrir fjármálakerfið á Íslandi, í annað sinn á tveimur árum. Bjarni segir að hættan hafi skapast vegna þess að dómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að verðtrygging lána með bindingu við erlenda gjaldmiðla væri óheimil.

„Í kjölfar dómsins kom nefnd um fjármálalegan stöðugleika saman og mat það svo að vissar líkur væru á því að allt íslenska bankakerfið myndi hrynja að nýju,“ segir Bjarni í tilkynningunni.

„Þá var öllum ljóst, að ríkisstjórnin var algerlega óundirbúin er dómurinn var kveðinn upp í júní og höfðu þó legið fyrir lögfræðiálit bæði frá Seðlabankanum og viðskiptaráðuneytinu í heilt ár. Verði þeirri stefnu fylgt sem lagt er til í þingsályktunartillögunni um ákærur er Alþingi komið í algerar ógöngur. Verði tillagan samþykkt verður eitt yfir alla að ganga.  Til að ýtrustu sanngirni sé gætt, jafnræðis í framkvæmd laga og því fordæmi fylgt sem í uppsiglingu er, er þá rétt að í upphafi haustþings verði lögð fram ákæra á hendur Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra til embættismissis og eftir atvikum sekta og fangelsisvistar, gegn Gylfa Magnússyni, fyrrverandi viðskiptaráðherra, til sekta eða fangelsisvistar, í öllum tilvikum vegna embættisbrota sambærilegra þeim sem tillögur liggja fyrir um í þinginu.“