Heildarskatttekjur af fjármálafyrirtækjum á næsta ári verða 37,5 milljarðar króna, eftir því sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á blaðamannafundi í Hörpu í dag. „Hann verður borinn uppi aðallega af fyrirtækjum í slitameðferð en einnig stóru fjármálafyrirtækjunum í landinu,“ sagði Bjarni á fundinum.

Áhrif skuldaniðurfellingarinnar á ríkissjóð eiga ekki að verða nein, samkvæmt áætlunum ríkisstjórnarinnar. Hugmyndir um skattlagningu á fjármálafyrirtæki í slitameðferð voru fyrst nefndar þegar fjárlagafrumvarp fyrir árið 2014 var kynnt. Slitastjórnirnar hafa mótmælt skattlagningunni harðlega og slitastjórn Glitnis býst við því að höfða mál vegna þeirra.

Á fundinum sagðist Bjarni ekki hafa neinar áhyggjur af fyrirhugaðri málshöfðun. Bjarni sagði að bankaskatturinn væri lágur í prósentum talið. „Skattstofninn er gríðarlega stór. Hann er margföld fjárlög ríkisins. Jafnvel þótt það yrði bara talað um eignarhliðina þá er hann margföld fjárlög ríkisins,“ sagði Bjarni.  Bjarni sagði að margvíslegir skattar hefðu verið hækkaðir á síðustu misserum. „En við höfum ekki séð verulega skattahækkanir á fjármálastofnanir í landinu,“ sagði Bjarni.