*

fimmtudagur, 9. júlí 2020
Erlent 11. júlí 2019 08:37

Bjørn Kjos hættir hjá Norwegian

Forstjóri og stofnandi Norwegian Air lætur af störfum eftir 17 ár í kjölfar fullnustu nýrrar fjármögnunar félagsins.

Ritstjórn
epa

Fjármálastjóri norska lággjaldaflugfélagsins Norwegian Air, Geir Karlsen, hefur tekið við tímabundið sem forstjóri flugfélagsins eftir að Bjørn Kjos tilkynnti að hann væri hættur störfum. Hann mun þó áfram ráðleggja félaginu sem hann hefur stýrt í 17 ár og verða stjórnarformanni félagsins, hinum 57 ára gamla Niels Smedegaard innan handar.

Kjos hefur lengi sagt að hann vilji fara að setjast í helgan stein. „Þú ættir ekki að stýra flugfélagi eftir sjötugt,“ sagði Kjos sem sagði nýja forstjórann mjög fínan gaur í frétt Bloomberg. „Þetta er síðasta kynningin mín, þið getið verið ánægð með það.“

Kjos hafði þó einnig sagt að hann vildi sjá viðsnúning í rekstri félagsins áður en það yrði eftir erfiðleika síðustu missera, og virðist jafnvægi vera að nást í reksturinn með þreföldun hagnaðar á öðrum ársfjórðungi ársins.

Námu tekjurnar 622,8 milljónum norskra króna, eða sem nemur 9,1 milljarði íslenskra króna, á sama tíma og vöxtur fyrirtækisins var einungis 6% meðan hann var 48% fyrir ári síðan.

Hraðfara vöxtur sem teygði félagið of langt

Félagið fór líkt og fleiri flugfélög í gegnum mikinn vöxt með fjölda nýrra leiða og miklum ráðningum á tímum lágs eldsneytiskostnaðar, en nú hefur það skalað til baka og hætt með sumar leiðirnar á ný eftir mikinn taprekstur. Eru starfsmenn þess yfir 11 þúsund og starfrækir það 162 flugvélar.

En það hefur kostað félagið mikið, eða hátt í 700 milljónir norskra króna að 18 Boeing 737 Max vélar þess hafa ekki enn fengið flugrekstrarleyfi eftir flugslysin í vetur líkt og á við um aðrar slíkar vélar.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur félagið fengið aukið fjármagn frá fjárfestum á síðustu misserum, en einnig virðist enn vera til skoðunar hjá annað hvort IAG, eiganda British Airways og fleiri félaga og Deutsche Lufthansa AG að kaupa félagið, eða fá frekari fjármögnun.