Björn Kr. Leifsson, eigandi líkamsræktarstöðvarinnar World Class, hefur samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins fest kaup á danskri líkamsræktarstöðvakeðju.

Samkvæmt heimildum blaðsins er hér um að ræða keðju sem rekur 13 til 14 stöðvar. Áreiðanleikakönnun mun vera í gangi og er ekki gert ráð fyrir að gengið verði endanlega frá kaupunum fyrr en um miðjan júlí. Þegar haft var samband við Björn í gær sagðist hann ekkert getað tjáð sig um málið að svo stöddu.

Þrek ehf., rekstraraðili World Class-stöðvanna, rekur þrjár líkamsræktarstöðvar á Íslandi, eina í Laugum í Laugardal, aðra í húsi Orkuveitunnar og þá þriðju í Spönginni í Grafarvogi. World Class var stofnað í júlí árið 1985 og fagnaði fyrirtækið því 20 ára afmæli á síðasta ári. Fyrirtækið var stofnað af Birni og fjölskyldu. Samrekstraraðili Björns í Laugum er Nýsir ehf.

Fyrirtækið Fitness Danmark er ráðandi líkamsræktarkeðja í Danmörku. Það var yfirtekið af Perkan Sport & Entertainment í apríl síðastliðnum.