Breski blaðamaðurinn David Ibison, sem fjallar um Ísland hjá Financial Times, greinir frá því í samtali við Viðskiptablaðið að haft hafi verið samband við hann af fulltrúa erlends vogunarsjóðs vegna umfjöllunar hans um Ísland.

Í helgarblaði Viðskiptablaðsins birtist eftirfarandi yfirlýsingu frá honum: „Eftir að ég skrifaði fréttaskýringu (e. comment piece) um Ísland, sem birtist í Financial Times 31. mars síðastliðinn, var haft samband við mig af  fulltrúa vogunarsjóðs sem vildi útskýra fyrir mér skoðanir sínar á veikleikum (e. fragility) íslenska bankakerfisins.

Hans skoðanir voru þær að bankarnir treystu að verulegu leyti á innlánareikninga á netinu en þau innlán gætu horfið mjög skyndilega sem myndi höggva nærri stoðum þeirra. Við ræddum saman í um það bil hálftíma. Ég hef hvorki haft samband við fjármálaeftirlitið á Íslandi né í Englandi vegna samtalsins enda er þetta aðeins eitt margra símtala sem ég hef átt eða móttekið um Ísland. Samtalið hefur ekki haft áhrif á nokkurn hátt á það hvernig ég fjalla um Ísland. Vissulega eru sum af áhyggjuefnum vogunarsjóða vegna landsins á rökum reist. FT hefur einfaldlega gætt þess að umfjöllun blaðsins um Ísland sé hlutlæg."

Áður hefur komið fram að Richard Portes, prófessors við London Business School, fékk samtal frá fulltrúa vogunarsjóðs vegna umfjöllunar hans um Ísland. Portes hafði sjálfur frumkvæði að því að upplýsa breska og íslenska fjármálaeftirlitið um þetta samtal sem hann átti við háttsettan mann hjá stórum vogunarsjóði en nánar er fjallað um það í úttekt Viðskiptablaðsins.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í helgarblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .