Hlutabréfamarkaðir hækkuðu í Bandaríkjunum í dag en líkt og í Evrópu virðast fjárfestar anda léttar yfir afkomutölum fyrirtæka þar sem þær eru oftar en ekki ívið skárri en búist var við.

Nasdaq vísitalan hækkaði um 1%, Dow Jones um 0,7% og S&P 500 um 1,1% en þetta er þá þriðji dagurinn í röð sem hlutabréfamarkaðir hækka vestanhafs.

American Express hækkaði um 9,7% í dag þrátt fyrir að hagnaður félagins á fjórða ársfjórðungi hafi dregist saman um 72% milli ára en það var þó minni samdráttur en gert hafði verið ráð fyrir.

Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins en sá hluti sem snýr að fjármálageiranum í Standard & Poor‘s vísitölunni hækkaði um 3,7%.

Mestu lækkun dagsins átti þó Delta Air Lines sem lækkaði um 20,1% eftir að hafa tilkynnt um töluvert tap á síðasta ársfjórðungi þessa árs eins og áður var greint frá í dag.

Hráolíuverð lækkaði töluvert í dag en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 41,85 Bandaríkjadali og hafði þá lækkað um 8,5%.