Baráttan um völdin í Washington verður harðari með hverjum deginum sem líðuri en kosningarnar verða haldnar 2. nóvember. Þessar kosningar eru haldnar á miðju kjörtímabili forsetans (e. mid term election). Kosið verður um 37 sæti til öldungadeildarinnar (e. Senate), öll 435 sætin í fulltrúadeildinni (e. House of Representatives) og 34 af ríkisstjórunum 50.

Mikill fjöldi skoðanakannana er gerður daglega. Samkvæmt vef WSJ mun Repúblíkanaflokkurinn ná meirihluta í fulltrúadeildinni. Samkvæmt nýjustu könnunum munu þeir bæta við sig 50 sætum, fá 228 sæti á móti 208 sætum Demókrataflokksins. Eru 40 sæti enn líkleg til að getað færst á milli flokkanna. Yrði þetta niðurstaðan væri það mikið áfall fyrir Barack Obama forseta því þá þyrfti hann að semja við repúblíkana um nánast hvert einasta frumvarp sem stjórn hans vill koma í gegnum þingið.

Í öldungadeildinni eru nánast útilokað að Demókratar missi meirihluta sinn. Er það einkum vegna þess að aðeins er kosið um 37 af 100 sætum. Kannanir gera þó ráð fyrir að mjótt verði á mununum en nú hafa demókratar tveggja sæta forskot, 51 á móti 49. Yrði niðurstaðan þessi myndu repúblíkanar bæta við sig 8 öldungardeildarþingmönnum, en 34 á 37 eru kosnir til næstu sex ára. Jafnvel þó repúblíkanar næðu 50 sætum væru demókratar enn í meirihluta, þar sem atkvæði varaforsetans Joe Biden myndi ráða niðurstöðu. Varaforsetinn er forseti öldungardeildarinnar og atkvæðin því í raun 101.

Ríkisstjórakosningar eru haldnar í 34 fylkjum. Kannanir sýna að Repúblíkanaflokkurinn muni vinna 6 ríkisstjórakosningar og því væru 30 ríkisstjórar repúblíkanar en 20 demókratar. Demókratar munu þó samkvæmt könnunum vinna mikilvæg fylki, Florída, þar sem Jeff Bush var lengi ríkisstjóri og Kaliforníu, þar sem Arnold Schwarzenegger hefur ráðið ríkjum síðustu 8 árin en er ekki í framboði nú.

Hér er hægt að skoða frekari upplýsingar um kosningarnar á vef WSJ.